Goslokalag 2014

Árið 1998 héldu eyjamenn upp á að 25 ár væru liðin frá goslokum. Síðan þá hefur þessi hefð haldist árlega og leggja eyjamenn mikið í hátíðina ár hvert. Bærinn er töluvert skreyttur og þá sérstaklega í gulum, rauðum og appelsínugulum lit og útbúin er þétt dagskrá alla helgina með listsýningum, tónleikum og alls kyns gjörningum. Það má segja að eyjamenn noti listina til að halda upp á goslokin en gjarnan eru vígð listaverk þessa helgi sem eru þá annað hvort gefin bænum eða höfð sem hluti af sýningu. Goslokahátíðin er ávallt haldin fyrstu helgina í júlímánuði og streyma margir gamlir eyjamenn frá meginlandinu aftur á æskuslóðir í tilefni hátíðarinnar. 

Annar skemmtilegur hluti af þessari hátíð er goslokalagið, en það er samið og flutt af eyjamönnum. Goslokalag Vestmannaeyja árið 2014 heitir Æskuslóð og er samið af Helga Tórshamar og Gísla Stefanssyni en textinn er eftir Ingu Guðgeirsdóttir og Sævar Helga Geirsson. 

Hljómsveitin Afrek flytur lagið en þar spila höfundar lagsins, Helgi Tórshamar á kassagítar og raddir og Gísli Stefáns sem spilar gítar, "slide"gítar og raddar. Auk þeirra eru tónlistarmennirnir Kristinn Jónsson sem spilar á bassa og munnhörpu, Birgir Nielsen á trommur, Matthías Harðarson á píanó og Hammond orgel og söngkonan Sunna Guðlaugsdóttir syngur bakraddir. Lagið hefur vakið mikla lukku hjá eyjamönnum og er hægt að hlusta á það hér fyrir neðan.

 

No Comments Yet.

Leave a comment